fbpx

Bærinn

Skorrastaður, heimili Skorrahesta, var upphaflega kirkjustaður sem afi og amma Dodda, Guðjón Ármann og Sólveig Benediktsdóttir keyptu ásamt fósturföður Guðjóns fyrir um 100 árum síðan. Kirkjusóknin í Norðfirði og fjarðanna í kring var nefnd eftir kirkjustaðnum og kölluð Skorrastaðarsókn. Eftir kristnitökuna sem ákveðin var á Alþingi árið 1000 urðu til í tímans rás kirkjusóknir um allt land, og þar á meðal var Skorrastaðarsókn. Á Skorrastað hafa staðið margar kirkjur, en sú síðasta var timburkirkja sem skemmdist mikið í fárviðri 8. mars 1896. Í kjölfarið var ákveðið að flytja kirkjuna út í stækkandi þéttbýli í nesi á Norðfirði þar sem hún var byggð 24. janúar 1897. 

Guðjón Ármann, afi Dodda, var alinn upp á Skorrastað hjá fósturföður sínum og föðurbróður. Guðjón var harðduglegur verkmaður, góður bóndi og hestamaður, en jafnframt gleðigjafi og hafði sérstakt yndi af söng og dansi. Guðjóni var annt um jörðina sína og bústofninn, átti góða hesta og afurðarsamt fé og leitaðist alla ævi við að gera jörðina betri til landbúnaðar. Hann ferðaðist mikið á gæðingum sínum, flutti inn hesta til Norðfjarðar handa öðrum bændum til reiðar og notkunar, en margir minnast hans enn frekar fyrir það hve léttur hann var á fæti og lifa enn sögur af ferðum hans eftir lyfjum til bjargar veikum um langan veg á stuttum tíma. Guðjón minntist oft uppáhalds hests síns, Smyrils, sem var grár og sérstaklega næmur og góðgengur. Ættingjar segja Dodda líkjast afa sínum hvað mest. Guðjón lést 91 árs eftir mánaðardvöl á sjúkrahúsi. Amma Dodda var Sólveig Benediktsdóttir fædd og uppalin á Akureyri. Hún var mikil húsmóðir og sinnti uppeldi dætra sinna af mikilli nætni. Barnabörnin, þar á meðal Doddi, fengu að njóta umhyggju hennar öll sín uppvaxtarár. Sólveig hafði yndi af söng og kunni ógrynni af ljóðum og söngkvæðum. Hún tók þátt í búskapnum og minnist Doddi rösklegra handtaka hennar með hrífuna útá túni, eitt sinn er rigningarlegt var, en þá var Sólveig komin á efri ár. Sólveig lést 88 ára að aldri. 

Doddi var einkabarn Jónu Ármann og Júlíusar Óskars Þórðasonar. Þau hófu búskap á Skorrastað 1950 við hlið foreldra Jónu, Guðjóns og Sólveigar. Fyrstu árin voru þau á vertíðum á vetrum í Hafnarfirði og suður með sjó, en settust alkomin að á Skorrastað og byggðu íbúðarhúsið á Skorrastað 3 árið 1957. Júlíus var mikill verkmaður eins og tengdafaðir hans. Með Júlíusi komu ferskir búskaparvindar í Norðfjörð, enda hafði hann unnið með framsæknum bændum á Suðurlandi og fyrir vestan, þaðan sem hann var ættaður. Hann lét sér annt um jörðina, sérstaklega hvað varðaði útlit og umgengni um hana. Var það lengi haft að orði hvað staðarlegt væri heim að líta, fyrir sakir snyrtimennsku húsbóndans. Júlíus var mikill sögumaður, hafði yndi af frásögnum af samferðafólki og gaf út bókina ,,Fyrir vestan og Austan” sem lýsir að einhverju leyti frásagnargleði hans. Hann lét sér mjög annt um bústofninn og átti vænt fé og væna nautgripi. Hann sagði gjarnan þegar honum var borið á brýn, að hann eyddi of miklu í skepnurnar: ,,Ef þú fóðrar illa, þá hefur þú bæði skaðann og skömmina. En ef þú fóðrar vel þá hefur þú þá bara skaðann.” Júlíus var ekki jafn mikill hestamaður og tengdafaðir hans, en Jóna bætti það upp. Hún var sannarlega fædd á hestbaki og söngurinn var tungumálið hennar frá upphafi. Hún tók ljóðelskuna í arð frá foreldrum sínum og jós úr þeim naktarbrunni yfir Dodda og börnin hans, jafnt sem gesti og gangandi. Jóna var einstaklega glaðsinna og átti létt með að koma fólki í gott skap. Júlíus og Jóna voru gestrisin með afbrigðum og segja má að þau séu fyrirmyndin að ferðaþjónustunni á Skorrastað. Þó svo að þau áttu bara eitt barn, þá var heimilið alltaf fullt af börnum sem mörg komu langt að, en önnur úr næsta nágrenni, og þótti öllum vænt um Jónu og Júlla á Skorrastað.

Doddi og Thea byrjuðu sinn búskap með Júlíusi og Jónu 1976. Lengst af þeim tíma hafa þau búið með kýr, kindur, svín og hesta. Síðan Skorrahestar hófu vegferð sína, þá hefur búskapurinn byggst á hestum, sauðfé og gestum.